Velsældarvísar eru samstarf Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytisins um miðlun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði á Íslandi

Velsældarvísar eru mælikvarðar sem er ætlað að gefa heildarmynd af hagsæld og lífsgæðum landsmanna yfir tíma. Á alþjóðavísu er víða unnið að þróun slíkra mælikvarða sem skref í átt að sameiginlegum skilningi á því hvaða þættir gera líf fólks betra. Verkefnið um velsældarvísa byggir á vinnu nefndar forsætisráðuneytisins sem stofnuð var í þeim tilgangi að koma með tillögur að mælikvörðum um hagsæld og lífsgæði.

Skýrslu nefndarinnar má nálgast hér:
Mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði

Flokkun velsældarvísa
Velsældarvísar eru 39 talsins og eru þeir flokkaðir í þrjá undirþætti: Félagslegir mælikvarðar, efnahagslegir mælikvarðar og umhverfislegir mælikvarðar. Hverjum mælikvarða er svo skipt í undirflokka og þeim svo í tiltekna vísa eða mælingar.

Félagslegir mælikvarðar
Heilsa: Lífslíkur, lífslíkur við góða heilsu, þeir sem neita sér um læknisþjónustu og eigið mat á andlegri heilsu.
Menntun: Menntunarstig, brotthvarf úr framhaldsskóla og símenntun.
Félagsauður: Kosningaþátttaka, stuðningur annarra, þátttaka í skipulögðu félagsstarfi, traust til samborgara og traust til stjórnmálakerfisins.
Öryggi: Öruggur í nærumhverfi og þolendur afbrota.
Jafnvægi milli vinnu og einkalífs: Löng vinnuvika, óhefðbundinn vinnutími og tvö störf eða fleiri.

Efnahagslegir mælikvarðar
Hagkerfið: Verg landsframleiðsla og hagvöxtur, þróun verðlags, kaupmáttur, skuldir heimila og skuldastaða hins opinbera, heimila og fyrirtækja sem hlutfall af VLF.
Atvinna: Hlutfall starfandi, atvinnuleysi, þeir sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun (NEET) og starfsánægja.
Húsnæði: Verulega íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar og ástand húsnæðis.
Tekjur: Lágtekjuhlutfall, viðvarandi lágar tekjur, skortur á efnis- og félagslegum gæðum og jöfnuður (Gini-stuðull).

Umhverfislegir mælikvarðar
Loftgæði og loftslag: Svifryk og losun gróðurhúsalofttegunda.
Land: Árangur í landgræðslu og náttúruverndarsvæði.
Orka: Hlutfall endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun.
Úrgangur og endurvinnsla: Magn heimilisúrgangs og endurvinnsluhlutfall heimilissorps.